Undir heillastjörnu.

Halló heimur!

Fyrir allmörgum árum kom út bók (man ekki eftir hvern) sem hét Undir kalstjörnu.  Það er hinsvegar alveg ljóst að íslendingar búa ekki undir þeirri stjörnu heldur einhverri mjög öflugri heillastjörnu. 

Jarðskjálftar eru sennilega einhverjar óhuggulegustu náttúruhamfarir sem fyrirfinnast.  Ólíkt veðri og eldgosum virðist ekki vera hægt að spá fyrir um það hvar eða hvenær skjálfti skekur jörðina.  Þar sem ég er sunnlendingur (Holtamaður) að upplagi eru jarðskjálftar eitthvað sem maður vandist við.  Þeir skjálftar voru auðvitað bara svona pínulitlir og gerðu engan usla og maður var ekkert að velta því fyrir sér.

17. 06.2000 líður manni seint út minni þó maður hafi búið í Reykjavík og verið á Ingólfstorgi að horfa á einhverja skemmtikrafta þegar skjálftinn skók jörðina.  Ég sá skjálftann frekar en fann hann, það titruðu svo rúðurnar í Moggahöllinni að maður skildi ekki strax hvað var að gerast, svo áttaði maður sig.  En að þetta væri fyrsti alvöru suðurlandsskjálftinn síðan fyrir 1900 datt manni ekki í hug.  Síðan heyrði maður fréttir, og þakkaði sínum sæla fyrir að ekki urðu slys á fólki.

21.06.2000 líður mér örugglea aldrei úr minni, þegar seinni stóri skjálftinn kom.  Ég lá í rúminu, svo alltíeinu kom ægilegt högg, Reykjavík er sko marga tugi kílómetra frá Hestfjalli, en höggið var samt alveg gríðarlegt.  Ég teygði mig í útvarpið og viti menn, skelkaðir fréttamenn sögðu óljósar fregnir af jarðskjálfta á suðurlandi.  Aftur slapp fólk ómeitt, þó töluvert mikið tjón hafi orðið á eignum.  Maður hugsaði til kunningja sem búa í nágrenni við upptökin, og reyndi að senda þeim styrkjandi hugsanir.  Seint um nóttina var orðið ljós hverskyns var, hyldjúpar sprungur í jörðinni, vegurinn næstum ófær þar sem sprungan fór í gegnum hann, ég sofnaði loksins.

Tveimur dögum síðar, á 90 ára afmælisdegi föður míns hefði hann lifað, ókum við hjónin austur í heimahagana.  Þar mætti manni eyðilegging, íbúðarhús bæja sem maður kom oft á í uppvextinum voru mörg ónýt, sama mátti segja um útihús víða.  Náttúruöflin settu niður deilurnar um gamla samkomuhúsið á Laugalandi, það var gersamlega ónýtt eftir skjálftann og vélar byrjaðar að brjóta það niður sem uppi stóð.  Ekki svo að skilja að húsið hafi hrunið, en það var svo illa farið.

Nú þegar ég bý utan jarðskjálftasvæðisins á suður- og suðvesturlandi get ég ekki annað en sent öllum íbúum svæðisins baráttukveðjur.  Þvílík mildi að einungis 28 manns skyldu slasast og enginn alvarlega.  Þetta er nú bara með þvílíkum ólíkindum að ótrúlegt er.  Maður veltir fyrir sér hörmungunum sem urðu í Kína.  Þar er jú fleira fólk og greinilega ver byggð hús, en sá skjálfti var líka stærri.

Afleiðingar öflugra jarðskjálfta eru svakalegar, þær verða það alltaf.  Þau okkar sem velja sér búsetu á jarðskjálftasvæðum verða að vera undir það búinn að allt fari einn daginn til fjan...s.  Samt er það nú þannig að maður hugsar aldrei um það að eitthvað komi fyrir hjá manni sjálfum.

Sunnlendingar, sendi ykkur mínar fallegustu hugsanir og kveðjur.

 Miklu meira síðar...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Já, við vorum saman í bænum á 17. fyrir nokkrum árum þegar skjálftinn reið yfir. Vægast sagt sérkennileg upplifun í mannfjöldanum.

Við Siggi áttum erindi í gær austur undir Gunnarsholt og Árni fór með okkur. Hann hafði á orði að það væri ekkert fútt í þessu... eiginlega engar skemmdir á sjá. Þó sáum við hruninn húsgafl úr útihúsi og fínar sprungur í jörð meðfram vegum. En það er greinilegt að tjónið er mun minna en síðast. Þó er aldrei að vita hvað kemur í ljós með tímanum. Foreldrar mínir tilkynntu ekkert tjón árið 2000 en svo kom í ljós á öðru ári að allt gler í íbúðarhúsinu er ónýtt. En þá var orðið of seint að tilkynna tjón svo þau sitja uppi með það sjálf.

Björg Árnadóttir, 1.6.2008 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur Guðmundsson

Höfundur

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2323
  • Jökla við Brú
  • Brúin við Brú
  • Sturta
  • Laugin á Laugavöllum

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 7213

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband