Færsluflokkur: Bloggar

Ísland í dag!

Halló heimur!

 Nokkuð er um líðið síðan ég skrifaði línur hér til þín heimur.  Ég hef svona verið að hugsa um ýmsa hluti eins og gengur.  Ýmislegt hefur gerst eins og allir vita og margt til viðbóar mun gerast.  Hinir frægu frægu helmingaskiptaflokkar (BD) eru aftur komnir til valda á Íslandi.  Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, margir voru ekki ánægðir með GSið.  GSið jók skattheimtu, sá til þess að ekki borgar sig að eiga peninga í banka, ekki svo að skilja að margt almúgafólk eigi peninga í banka eftir sl. fjögur ár, ár gjaldþrota, heimilistaps og fleira í þeim dúr sem alltof langt mál yrði að telja upp enda þekkir þú ástandið  vel kæri heimur.

Vieðigjald hefur verið mikið í umræðunni, gjald sem útgerðin þarf að greiða til ríkisins fyrir afnot af auðlind sem er sameign þjóðarinnar.  Einhverjir sögðu veiðigjaldið alltof hátt, verið væri að taka allan hagnað fyrirtækjanna í skatt.  Það er slæmt að taka allan hagnað fyrirtækjanna, sé það gert verður ekkert eftir til að viðhalda tækjum og tólum útgerðarinnar, sem aftur hlýtur að valda því að útgerð leggst af.  Kannski er það rétt sem BDið segir að veiðigjaldalögin, sem þau byrjuðu á að kippa úr sambandi, séu óframkvæmanleg.  Ég hef ekki vit á því og verð því að eftirláta öðrum að hafa það.  Hitt veit ég að útgerðin hefur skilað miklum hagnaði síðan allt hrundi, gengi krónunnar líka.  Maður veltir þessu máli gjarnan fyrir sér þegar maður sér hverjir borga hæstan tekjuskatt.

BDið hefur gengið hart fram í að mála stöðu lands og þjóðar mjög svarta.  Augljóslega er staðan ekki góð, en er ekki rétt að hysja upp um sig buxurnar og reyna að gera eitthvað í málinu annað en taka veiðigjaldið af og breyta bótakerfinu þannig að þeir sem hafa mest fái enn meira.  Mér hefði fundist að styðja ætti við þá sem hafa minnst og borga þeim sem hafa mest minna úr ríkiskassanum.  Það virðist hinsvegar ekki raunin, svo merkilegt sem það er.  BDið sýnir sitt rétta andlit og stendur að baki sínum.

Ég verð að óska ykkur til hamingju með árangurinn hingað til, kæru kjósendur, sem sáuð til þess að koma hrunarkitektunum aftur til valda.

Meira síðar.


Bættar samgöngur = hærra vöruverð á landsbyggðinni...

Halló heimur!

Nokkuð er síðan ég tjáði mig síðast hér.  Ég eindfaldlega gafst upp á því á hruntímanum, allir voru að kvarta og kveina yfir yllri meðferð á sér og sínum, hækkun lána, lækkun eigna og svo framvegis.  Ég fór, eins og aðrir, ekki varhluta af því en ég hafði ekki tekið mikið af lánum, var ekki á nýjum margmilljónalansbíl, sem betur fór.  Ég finn til með þeim sem fóru illa út úr öllu saman, ég hef skilning á þeirra vandamálum en get auðvitað ekki ímyndað mér hvernig það er að missa vinnuna, síðan húsnæðið og svo óhjákvæmnilega móðinn að lokum.

 Þetta er þó ekki tilefni þessara skrifa, eins og fyrirsögnin bendir til ætla ég að velta fyrir mér þessum hlutum sem eru að gerast í dag með innheimtu veggjalda til framkvæmda.

Ég, eins og aðrir, borga um 50% af keyptum bensínlítra til rikísins í formi skatta og gjalda.  Ég hef svolítið hugsað um hvers við eigum að gjalda sem búum lengra en einnar til tveggja kukkustunda akstursfjarlægð frá Reykjavík.  Því er nefnilega þannig háttað að allir almennir vöruflutningar fara um vegina með vörubílum.  Vörubílar aka um vegina og greiða veggjöldin, ef til þeirra kemur, og það þýðir hækkun á flutningsgjöldum sem aftur þýðir hækkun á vöruverði.  Við, sem eigum þess ekki kost að skreppa til höfuðstaðarins í verslunarferðir, verðum að láta okkur þetta linda. 

Þetta er eitt af því sem ég skil ekki með þessa ríkisstjórn, og þó, kannski skil ég það, það átti jú að flytja alla heilbrigðisþjónustu. sem eitthvað að kvað, til Reykjavíkur.  Þetta er kannski undanfari þess að leggja landsbyggðina, utan tveggja aksturstíma radíuss, bara niður?  Þá þarf ekki að halda úti dýrri heilbrigðisþjónustu, ekki halda við vegum, ekki halda úti dýrum ríkisstofnunum ss. lögreglu þar sem ekkert verður eftir til að líta eftir þegar allir verða fluttir á suðvesturhornið. 

Ögmundur Jónasson segir það augljóst að ef tekið verði tillit til undirskriftanna (um 35000) gegn veggjöldum þá verði bara hætt við samgöngubætur, ríkissjóður sé tómur.

Ég er að lokum með eina spurningu, ég veit hún er voða vitlaus, en hvað hefur orðið um alla vegapeningana sem sérstaklega eru eyrnamerktir ef kassinn er tómur?

 Meira síðar...


Skjaldborg um hei..., nei annars höfuðborgarsvæðið?

Halló heimur á aðfangadag anno domini 2009!

 Það er fallegur dagur hér austanlands, snjór yfir og stillt veður, aðeins verið smá drífa til að auka stemninguna.

Það er ekki eins falleg fréttin sem var í sjónvarpinu fyrr í dag um þreföldun kostnaðar við fjarnám og kvöldnám við framhaldsskóla landsins.  Ég bara botna ekkert í henni Jóhönnu minni og Steingrími á móti.  Steingrímur sem þykist alltaf bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, virðist nú með fulltingi Jóhönnu minnar, ætla að tryggja flótta af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar með því að þrefalda kostnað við nám.  Þeir sem vilja búa og vinna (ef vinnu er að hafa) í sinni heimabyggð og stunda nám jafnframt verða nú sennilega að flytja þangað sem skólarnir eru til að geta haldið námi áfram, að öðrum kosti að vera þrisvar sinnum lengur að klára nám sitt.  Því er nú þannig farið að flestir skólar eru á höfuðborgarsvæðinu og þar af leiðir að landsbyggðarmaðurinn Steingrímur á móti er sjálfum sér samkvæmur og er snýst á móti landsbyggðinni með grímulausum hætti.  Fylgismenn hans ráða auðvitað menntamálum, þe. hún Kata litla, og því ekki mótmæla að vænta úr þeirri átt.  Ef marka má fréttina þá voru ekki miklar umræður um þetta mál á Alþingi svo ekki er stjórnarandstaðan að hugsa um landsbyggðarfólkið, né heldur þá sem reyna að sjá fyrir sér sjálfir á meðan á námi stendur en það þurfti svosem ekki að koma neinum á óvart.

Ég legg eftirfarandi til við Jóhönnu (sem ég hætti hér með að kalla "mína") og Steingrím á móti:  Leggið á 100% skatt, útdeilið svo mat og brýnustu nauðsynjum til fjöldans.  Sjáið til þess að enginn, nema þá kannski auðmenn og afsprengi þeirra, geti aflað sér menntunar.  Tryggið að ekki verði nein uppbygging á atvinnutækifærum, vísið út öllum sem vilja koma með peninga til Íslands og látið svo nýlenduveldin tvö hafa það litla sem eftir er.  Þar með þurfa Íslendingar að standa í sovéskum biðröðum eftir öllu, búa í húsnæði í eigu ríkisins osfrv. 

Þar verða villtustu draumar Steingríms á móti að veruleika.

Að auki legg ég til að hinn íslenski alþýðumaður, sem gert að fara undir fátækramörk með gengdarlausri beinni og óbeinni skattheimtu, verði kosinn maður ársins.

Gleðileg (Steingríms) jól!


Æ,æ.....

Halló heimur! 

Jæja, þá er það afstaðið.  ÆÆÆsseivið er komið á okkar ábyrgð.  Hvað ætli gerist þegar bretar og hollendingar skoða fyrirvarana og ákveða að hlæja vitleysunni?  Það er ekki hægt að ímynda sér hvað gerist þá.  Það er búið að loka á dómstólaleiðina, nema náttúrulega að fara með ágreiningsefni um samninginn fyrir breskan dómstól.  Hvernig halda menn að það fari?

Við, þessi litla þjóð norður í ballarhafi, má sín einskis gegn ofureflinu, nýlenduþjóðin bretar með fulltingi annarrar nýlenduþjóðar, hollendinga, hefur skyndilega tögl og hagldir.

Kannki meira síðar...


Í(E)S(B)land

Halló heimur!

 Jæja, nú er hið háa Alþingi íslendinga, elsta löggjafarsamkunda heims, búið að samþykkja tillögu Heilagrar Jóhönnu og Steingríms (á Móti) um að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. 

Það er bæði gott og vont. 

Ég er að mörgu leyti sammála Sigmundi Davíð (hinum útvalda) um að Ísland sé á hnjánum að biðla til ESB.  ÆÆÆsseivið að sliga okkur og samningar (ef samninga skyldi kalla) um það bull alltsaman setur okkur jafnvel lengra niður en á hnén, maður sér fyrir sér Ólíver Twist á hnjánum að biðja Fagin um meiri mat, það vita jú allir hvernig það endaði. 

Ég er líka að mörgu leyti sammála þeim sem segja að tækifæri felist í ESB fyrr Ísland.  Það að hugsanlega verði hægt að taka upp skárri gjaldmiðil (eftir svona 20 ár) er ákveðin gulrót.

Ég er samt þeirrar skoðunar að ekki megi gjalda ESB hvað sem er til að fá inngöngu.  Ég vil ekki, alls ekki, ekki undir nokkrum kringumstæðum, aldrei, sama hvað í boði er, afhenda öðrum yfirráð yfir lifibrauði þessarar þjóðar, fiskimiðunum.  Við rákum ræningja af höndum okkar endanlega 1975 þegar við höfðum sigur í síðustu landhelgisdeilu um 200 mílna efnahagslögsögu.  Þessa lögsögu megum við ALDREI af hendi láta.  Heldur megum við ekki láta af hendi yfirráð yfir öðrum auðlindum okkar, orkuauðlindunum, vatnsföllum, háhitasvæðum eða öðru sem verða kann okkur til lífs eftir að búið er að selja örlög okkar (Íslensku þjóðarinnar) í hendur bretum og hollendingum í formi ÆÆÆsseiv bullsins.

Eitt gott kemur þó af þessu öllu saman, það er að nú getur fengist niðurstaða í eldgamalt deilumál, þe. fá Íslendingar góðan samning eða vondan.  Verði samningurinn vondur fellir þjóðin hann og engu er tapað nema milljarðinum sem fer í gagnslausar samningaviðræður.  Hvað er einn milljarður til eða frá, við erum svosem ekkert verr stödd þó við skuldum einn í viðbót.  Ég treysti semsagt þjóðinni til að fella mögulegan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Ef samningurinn yrði góður og við héldum auðlindum okkar, þá erum við ekki verri eftir en áður, kannski bara betri, kannski fáum við eitthvað uppí milljarðinn frá ESB.

Svo er spurningin, stóra spurningin hvort einhverjir pólitíkusar, gefum okkur að ESB-sinnar verði við völd þegar þar að kemur, svíki ekki loforðin um þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.  Hverjum ætli komi það á óvart?, ekki honum mér.  Munið að þingmaður VG sagði að Íslenska þjóðin hefði greitt atkvæði um ÆÆÆsseiv í kosningum í apríl sl., ég man ekki eftir því að hafa sett kross við ÆÆÆsseivið.  Ef kjörnir fulltrúar geta bullað svona núna, þá geta þeir gert það aftur.

Miklu meira síðar...


Æsseiv...

Halló heimur!

Það er náttúrulega fullseint að spyrja þessara spurninga núna, en ég ætla að gera það samt:

Hvers vegna var ekki látið á það reyna að Bretar, með beitingu hryðjuverkalaga, sætu sjálfir uppi með hræið af Landsbankanum og þar með Æsseiv bullið allt?

Hvers vegna, ef svarið yrði nei, var ekki Bretum og Hollendingum fengið hræið af Landsbankanum og þeir látnir sjálfir um ávöxtun "eignanna" til borgunar reikningseigendum?

Hvers vegna veltu forsprakkar fyrri ríkisstjórnar sér strax á bakið með lappir upp í loft eins og hundar sem gefast upp í slagsmálum, án þess svo mikið að rétta litla fingur til bjargar þjóðinni?

Í fréttum í dag var sagt frá því að lánshæfi Íslands væri að nálgast ruslafötu matsfyrirtækjanna.  Hvað gerist þá?  Koma Hollendingar og Bretar og hirða eignir íslensku þjóðarinnar upp í Æsseivskuldir?  Hvað gera Heilög Jóhanna og Steingrímur á Móti þá?  Hækka skatta og lækka laun til að veita þjóðinni endanlega náðarhöggið?

Ég bara SPYR!

Miklu meira síðar...


Að koma heimilunum....... á vonarvöl.

 Halló heimur!

Hvað ætli stjórnendur þessa lands séu að hugsa? Ætli þeir hugsi yfirhöfuð nokkuð? Ég veit það bara svei mér ekki. Ég kallaði Jóhönnu Sigurðardóttur “Jóhönnu mína” af því að ég hafði alltaf haft mikla trú á henni. Mér fannst hún oft vera eini boðberi réttlætis og verjandi lítilmagnans þegar vaða átti yfir hann. En nú efast ég, já, ég verð að viðurkenna að ég efast, mér er það óljúft en verð samt að gera það.

Þjóðfélagið er komið að fótum fram, skuldum vafið og voðalítil birta framundan. Skattar eru hækkaðir, bensínið hækkar, matarverð hækkar, allt hækkar, svo á að ráðast á fólkið með meðallaunin að þeim ógleymdum sem hafa minna en það. Fólkið með meðallaunin 400 til 500þús. kr. á mánuði. Þetta fólk er jafnan það fólk sem virðist pluma sig best. Upp til hópa duglegt og ósérhlífið, margt með margra ára háskólamenntun að baki og líka fólk sem komist hefur áfram á eigin verðleikum, kannski ekki einusinni með framhaldsskólamenntun, en plumar sig samt vel, ræður við rekstur heimilis, stendur jafnvel í skilum með lánin sín. En á ekkert eftir þegar búið er að gjalda keisaranum það sem hans er. Nú á að lækka laun þessa fólks. Ég er ekki að segja að þetta fólk eigi ekki að taka þátt í endurbyggingu Íslands. Þetta fólk gerir það þegar. Þetta fólk skapar veltuna í þjóðfélaginu, fer út í búð og kaupir í matinn, fatnað á fjölskylduna, bensín á fjölskyldubílinn osfrv. Borgar af meira að segja af húsnæðislánunum, það mun líka setja bankana og Íbúðalánasjóð á hausinn ef allir hætta að borga (ef marka má fréttaflutning frá í vetur).

 

Það er akkúrat þetta sem er málið, að mínu viti, að skapa veltu og skila peningum aftur inn í kerfið. Ef engin fer í búðina að kaupa mat, fer búðin á hausinn. Búðarkonan missir vinnuna. Ríkið fær ekki virðisaukaskattinn af vörunum sem seldar voru í búðinni, ekki skatt af hagnaðinum sem búðin skilaði, ekki skatt af launum búðarkonunnar, ekki fjármagnstekjuskatt að því sem búðarkonan önglaði með útsjónarsemi inn á bankabókina sína til margra ára. Búðarkonan fer svo á atvinnuleysisbætur og getur ekki lengur staðið í skilum með húsnæðislánið sitt.

 

Hver er niðurstaðan?

Jú, heimili meðallaunafjölskyldunnar farið á vonarvöl, búðarkonan farin á vonarvöl, allir komnir á atvinnuleysisbætur, sem þýðir að ríkið fer líka á vonarvöl (ríkið greiðir sko atvinnuleysisbæturnar). Hvað þá?, jú allir saksóknararnir, ráðherrarnir, þingmennirnir fá ekki laun (ekkert kemur jú lengur í ríkiskassann), ætli þeir fari þá ekki bara líka á vonarvöl?

 

Það virðist vera orðið (yfirlýst) markmið að koma öllu og öllum á vonarvöl, er það kannski sú vinstri græna stefna sem við viljum hafa?

 

Miklu meira síðar...


Mikilvægustu kosningar frá stofnun lýðveldisins Íslands

Hallí heimur!

 Nú er komið að kosningum.  Þeim sömu kosningum og fólk krafðist í haust, og hafði fram í búsáhaldabyltingunni.  Nú er að sjá hvort fólk hefur kjark til að fylgja byltingunni eftir, eða það bara kjósi það sama og venjulega.

Miklu meira síðar...


Farinn...... úr glerhúsinu?

Halló heimur!

Davíð er farinn, Geirharður er farinn, Guðni er farinn og nú er Imba Solla líka farin.

Hver ætli sé þá eftir í forystu stjórnmálaflokka sem voru við líði á meðan við eyddum lánsfénu? Jú, Addi Kitta Gau og Steingrímur á móti.  Það er svo furðulegt að Steingrímur breyttist hratt úr "á móti" í "semi með".

Það er gamla sagan að þegar stóll er í vændum, hvað þá nú fastur í hendi, breytist hljóðið hratt í strokknum, í staðinn fyrir ískur og marr kemur lágur niður sem enginn heyrir.

Svo kemur allt í einu upp úr kafinu að andkvótasinninn Addi á sjálfur kvóta (las ég það ekki einhversstaðar annars?).

 Strákar, þið verðið að passa ykkur á að kasta grjóti í glerhúsi, það er aldrei að vita hvað gerist.

 Svo vilja þessir menn að mark sé tekið á þeim!?

 Miklu meira síðar...


Búsáhaldabankinn

Halló heimur!

Eitthvað virðist hrikta í stoðum Sjálfstæðisbankans, ææ, afsakið...., Seðlabankans meina ég.  Hvudddnin á maður annars að átta sig á hvur er hvað og hvur er hvers og hvur er hvað?  Þetta er náttúrulega engin leið.  Við horfum uppá forsætisráðherra sjálfstæðisbankans, afsakið aftur, sjálfstæðisFLOKKSINS, meinti ég auðvitað, hætta loksins, líka sem formaður Seðlaflokksins, æ, Sjálfstæðisflokksins.  Alltof seint reyndar að margra mati, meira að segja líka sjálfstæðismanna, að minnsta kosti sumra.  Hvurt skyldi þá leiðin liggja?, jú, í Sjálfstæðis.., nei ég meina SEÐLAbankann.  Þar færi hann skipun til fimm ára skv. lögum sem hafa verið í gildi til þessa dags.  Ég þekki reyndar ekki viðurlög þeirra, þe. þá refsingu sem þjóðinni skal gert að sæta, vilji hún losna undan oki Sjá.., æ, SEÐLAbankastjórans.  Þetta á reyndar ekkert sérstaklega við um þennan Davíð, þið munið kannski eftir honum?, heldur seðlabankastjóra (tókstu, lesandi góður, eftir því að ég ruglaðist ekki núna?) almennt.  Eitthvað virðast sumir þeirra kannast betur við vitjunartíma sinn (áminntir af yfirmanni sínum) en aðrir, allavega eru 2/3 þeirra búnir að átta sig, 1/3 er hættur, 1/3 hættir bráðum, 1/3 hættir ALDREI (ef marka má bréfaskriftir hans og yfirmannsins). 

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér hvað minn frómi forstjóri myndi segja við mig ef hann segði mér einn daginn að okkar samstarfi væri lokið og ég myndi svara: NE-HEI!!, ég fer ekki RASSGAT!! (og hafðu ÞAÐ!!!).

Miklu meira síðar...


Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur Guðmundsson

Höfundur

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2323
  • Jökla við Brú
  • Brúin við Brú
  • Sturta
  • Laugin á Laugavöllum

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband