9.4.2008 | 21:36
Vogaafleggjarabrautin....
Halló heimur!
Í morgun varð enn eitt slysið á Reykjanesbrautinni við Vogaafleggjarann. Það er nú eiginlega bera í bakkafullan lækinn að skrifa enn eitt bloggið um þessi vegamót.
Ég ætla ekki að skamma Vegagerðina, ekki framkvæmdaaðilann sem fór á hausinn eða neinn þeirra aðila sem vissulega bera ábyrgð á ástandinu það þessum fjölfarna vegi. Ég ætla heldur ekki að bera blak af neinum sem þessara aðila.
Ég ætla að skrifa um fólkið sem fer þarna um. Ég hugsa vel til allra þeirra sem þarna hafa lent í slysum og eiga mislanga leið til bata, vona sannarlega að allir geti orðið samir eftir.
Þrátt fyrir þetta get ég ekki orða bundist lengur, það vita allir hvernig ástandið er þarna. Það þarf að fara varlega þarna um, að maður tali nú ekki um þegar færðin er eins og hún var í morgun, snjór og hálka. Það virðist nefnilega stundum ekki skipta fólk máli hvernig færið er, útsýnið eða umhverfið. Ég var fyrir nokkru fyrir sunnan á leið heim frá Reykjavík, ætlaði austur um suðurland þar sem sú leið hugnast mér betur en norðurleiðin með öllum sínum heiðum og hásléttum. Þegar ég kem í Hveradali versna skilyrði til mikilla muna, það er skafrennignur og oft mjög blint. Ég ek lengst til hægri á veginum og hægi ferðina niður í 70-80km þar sem ég taldi ekki öruggt að aka hraðar við þetta takmarkaða útsýni, skyndilega ekur jeppi fram úr mér hægra megin. Hann var greinilega að flýta sér svo mikið að hann varð að fara röngumegin framúr mér.
Ég velti því stundum fyrir mér hvað fólk sem gerir svona er að hugsa, ég velti því líka fyrir mér hvað fólk sem ekur alltof hratt um Vogavegamótin er að hugsa. Það vita allir að þessi kafli á Reykjanesbrautinni er hættulegur, þarna þarf að sýna sérstaka aðgát. Þrátt fyrir alla þá umfjöllun sem hefur verið um klúðrið sem vissulega varð á framkvæmdinni virðist fólk ekki vera að velta þessu fyrir sér, mér finnst það furðulegt.
Svo fyrst ég er byrjaður að tala um samferðamenn mína á vegum landisins ætla ég að minnast á 2+1 veginn í Svínahrauni. Mér finnst þessi vegur fínn, ég myndi frekar vilja 2+2 veg, en þetta er góð byrjun. Það sem mér finnst skrítið er þörfnin sem margir fá til að fara framúr rétt aður en akreinarnar sameinast í eina. Þetta hefur iðulega gerst þegar ég hef farið þarna um, menn fara framúr á síðustu stundu og væntanleg eru þeir meiri töffarar sem eru tæpari á að sleppa.
Ökumenn, við berum ábyrgð á eigin hegðun í umferðinni.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2008 | 22:02
Vörubílar og aðrir bílar...
Halló heimur!
Þessa dagana er ekki um annað talað en "skærur" vörubílstjóra og annara bílstjóra. Verið er mótmæla háum álögum ríkisins á eldsneyti og ákvæðum evrópusamþykkta um hvíldartima vörubílstjóra.
Ég verð að segja að ég styð þessi mótmæli af heilum hug, hef reyndar ekki tekið þátt í þeim, en var mikið að velta því fyrir mér þegar vörubílstjórar og 4X4 voru með "skærur" hér fyrir austan. En ég var ekki á bílnum í vinnunni og er svo latur orðinn að ég nennti ekki heim að sækja hann, andinn var hins vegar í röðinni sem þokaðist í allra fyrsta gír yfir Egilsstaðanesið.
Í fréttaflutningi af þessu hefur berlega komið i ljós að ekkert skiptir máli nema "ég sjálfur". "Ég sjálfur" þarf að komast þetta eða hitt, og allir andsk.... skæruliðar geta átt sig, meira að segja líka þeir sem vinna fyrir "mig sjálfan".
Það er nefnilega málið að þetta mál, þe. ríkisálögumálið, snertir okkur öll, það skiptir málið hvað við þurfum að borga fyrir eldsneytið á bílana. Ríkið gæti lækkað álögur á eldsneytið til að gera okkur lífið bærilegra, en það virðist ekki vilji til þess.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2008 | 15:12
Bora.....
Halló heimur!
Nú um stundir er búið að bora göng frá Siglufirði í Héðinsfjörð. Þá er bara að klára úr Héðinsfirði í Ólafsfjörð. Þetta er nú alltsaman gott og blessað, það verður þá auðvelt að fara frá Siglufirði, eins og krakkarnir sögðu sem talað var við í sjónvarpsfréttatíma í árdaga Héðinsfjarðarganga.
Héðinsfjarðargöngin eru gott dæmi um íslenska pólítík. Einhverjir þingmenn og ráðherrar ákveða að gera eitthvað til að tryggja sér atkvæði og fá svo einhverja fræðinga til að reikna sig að einhverri þolanlegri niðurstöðu sem hægt er að selja almenningi.
Ég er ekki á móti veggöngum, ég vil endilega að menn bori eins mikið af göngum og mögulegt er, þó innan þess ramma að umferð sé nokkur á því svæði sem grafa á göngin. Nú þegar þetta er ritað hafa 112 bílar farið (frá miðnætti skv vef Vegagerðarinnar) um veginn milli Fljóta og Siglufjarðar. Hvað skyldu margir af þeim hafa farið um Héðinsfjarðargöng? Það er ekki gott fyrir mig sem "áhugamann um umferðarmannvirki" að segja til um það. Kannski hafa Fljótamenn fjölmennt til Siglufjarðar í dag?, ekki myndu þeir nota Héðinsfjarðargöng til þess. Kannski hafa 25 bílar Fljótamanna farið leiðina, það þýðir þá væntanlega að 50 af þessum 112 ferðum sem farnar hafa verið hefðu ekki farið um Héðinsfjarðargöng. Eftir eru 62 ferðir, kannski eru þar 30 bílar að koma að sunnan heim á Sigló. Eftir eru 32 ferðir sem gætu hafa notað göngin góðu, eru það nógu margir bílar til að réttlæta göngin?
Rétt að láta nokkrar aðrar tölur fylgja:
Fjarðarheiði, sama heimild, sami tími: 194 bílar (ferðir).
Fagridalur, sama heimild, sami tími: 527 bílar (ferðir).
Víkurskarð, sama heimild, sami tími: 712 bílar (feðir).
Rétt er að minna á að þetta er ritað á laugardegi fyrir páska.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2008 | 20:25
Í fréttum er þetta helst...
Halló heimur!
Hér í eina tíð byrjuðu allir fréttatímar á Gufunni á þessum orðum. Ég bara er ekki viss hvort þeir gera það enn, hlustaði þó á fréttirnar í hádeginu í dag.
En í þeim fréttum var það helst að menn sem börðu lögreglumenn við störf sín voru sýknaðir, einn fékk að vísu einhverskonar málamyndadóm, sem er gersamlega óskiljanlegur, að mínum sveitamannsdómi. Ég skil ekki hvert stefnir í þessum málum, menn virðast núorðið geta komist upp með hvað sem er, kannski ekki alveg refsilaust, en svo til. Ætli menn velti svo fyrir sér á morgun af hverju lögreglumenn við skyldustörf hafi verið barðir í nótt? Ég vona að sjálfsögðu að þeir verði ekki barðir, lögreglan á allan minn stuðning í þessum málum. Hitt er annað mál að svona meðferð árásarmála á lögreglumenn jafngildir opinberu veiðileyfi, þe. þú getur lamið lögreglumann og þú getur undir því yfirskyni að þú vitir ekki að hann er lögreglumaður, komist upp með það. Lögreglumaðurinn þarf semsagt að sanna að hann hafi sýnt þér skilríki. Þetta er þvílík svívirða að ég á ekki til orð!
En að allt öðru og öllu betra máli sem líka var helst í fréttum í dag, vega- og gangamáli. Það er nefnilega búið að ákveða að byrja að tvöfalda veginn frá Reykjavík austur um suðurland, og það á næsta ári. Og ekki nóg með það, það á líka að byrja á Vaðlaheiðargöngum! Ég verð nú að segja að þetta gleður mitt "áhugamanns um umferðarmannvirki"-hjarta. Ef ekki er ástæða til að fagna núna þá er það sjaldan! Það voru meira að segja færð allgóð rök fyrir því vinnufyrirkomulagi sem á að viðhafa við suðurlandsveginn, maður á því einhvernveginn ekki að venjast af stjórnmálamönnum. Ég hefði reyndar viljað fá Lónsheiðargöng líka í gang á næsta ári, en ég sætti mig glaður við þetta.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2008 | 21:08
Álverið Ísland
Halló heimur!
Jæja, nú er búið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir álveri i Helguvík. Það vantar að vísu orku og samninga um aðveituvirki fyrir orkuna (háspennulínur). Ég velti því stundum fyrir mér hvað menn séu að "spugglera", er ekki komið nóg af álverum? Nei, greinilega ekki, heimurinn heimtar ál og meira ál. Grafa meira báxít úr jörðu í Ástralíu og sigla með það hinumegin á hnöttinn til vinnslu.
Þetta er í sjálfu sér gott og blessað, það er jú betra að framleiða álið með orku íslenskra fallvatna eða orku gufunnar úr iðrum jarðar en td. kolum, eeeen má ekki framleiða fleira en ál með orkunni? Er ekki kominn tími til að endurskilgreina hvað sé "stóriðja"? Að mínu viti er stóriðja eitthvað sem skilar þjóðarbúinu miklum arði, það er kostur er fjöldi fólks fær vinnu um leið. Þar af leiðandi er álframleiðsla ágæt stóriðja. Menn tala um mengun og "að vera handbendi erlendra auðhringa" og fleira í þá átt. Það er skiljanlegt, álframleiðsla mengar og Alcan, Alcoa og Century aluminium eru vissulega erlendir auðhringar. Eitt er þó vert að hafa í huga með álið og það er sókn hráefnisins, báxíts, og umbreyting þess í súrál. Í því ferli er mesta mengunin og mesta raskið, það er eitthvað sem við heyrum sjaldan minnst á. Mótmælt er byggingu virkjunar inni í fjalli og stíflu sem er staðsett einhversstaðar á reginfjöllum sem fáir þekktu. Þó þessu fylgi vissulega rask, er ekkert á við báxítnámurnar í Ástralíu, ég minnist þess ekki að hafa heyrt um mótmæli gegn þeirri vinnslu.
Ég er þeirrar skoðunar að nóg sé komið af álverum á Íslandi og menn eigi að skoða aðra hluti. Nú verður einhver fúll og segir "þessi er kominn með álver og vill ekki leyfa öðrum". Það verður bara að hafa það. Mér finnst meiri framtíð í gagnaverinu sem á að byggja á suðurnesjum en álveri. Gagnaverið þarf mikla orku, slatta af menntuðu starfsfólki, sennilega þó færri en álver. Það má byggja miklu fleiri gagnaver en álver, mengun af völdum gagnavera er nánast engin, tölvubúnaður nútímans er að langmestuleyti endurvinnanlegur svo ekki mengar hann mikið. Eftirspurn eftir þjónustu gagnavera á eftir marfaldast miklu hraðar en eftirspurn eftir áli. Umfang rafrænna gagna tvöfaldast orðið fjórum sinnum á ári hverju og menn leita sífellt að ódýrari leiðum til að geyma þessi gögn.
Því segi ég að framtíðin sé bjartari fyrir Gagnaverið Ísland en Álverið Ísland.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2008 | 09:20
Heima er skást?
Halló heimur!
Ég er kominn heim aftur. Lagði af stað á fimmtudaginn, kom heim á föstudaginn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kemst ekki heim á einum degi eftir að ég flutti austur á land. Svona getur íslenskur vetur farið með mann.
Ég sat og borðaði kornflexið mitt í morgun, drakk einn kaffibolla og las blöðin í gær og í dag, þau komu nefnilega saman seint í gærkvöldi, annar "kostur" þess að búa úti á landi. Í blaði fann ég lítinn pistil um að einhverjir bloggarar hefðu sett fram þá hugmynd að lýsa yfir sjálfstæðu ríki á vestfjörðum. Þetta varð til þess að ég hugsaði svona 13 ár aftur í tímann (vá er svona langt síðan), til þess tíma þegar snjóflóðin urðu á vestfjörðum. Þetta voru skelfilegir atburðir sem höfðu margvíslegar afleiðingar fyrir fólkið í landinu.
Ég minnist þess að hafa rætt þetta lauslega við einn þáverandi vinnufélaga minn, sem ætíð hafði lausn allra mála á reyðum höndum. Málið var einfalt í hans huga: Bara flytja þetta lið allt saman suður til Reykjavíkur, þetta væru hvort eð er afætur, það þyrfti að moka peningum í "þetta lið" sem byggi þarna utan við mörk hins byggilega heims. Mér var nokkuð brugðið við þetta og reyndi að malda í móinn, en málið var leyst hvað sem ég segði, klippt og skorið, flytja "þetta lið" suður.
Ég hef stundum hugsað um þetta í seinni tíð. Það er nefnilega þannig að þetta viðhorf er mjög ríkjandi og þó nokkuð almennt: Hvaaah?, býrðu á Egilsstöðum?, ertekkaðflytjasuður? Nei, ég er ekki að flytja suður, ég er með ágæta vinnu, þokkalegt húsnæði, mig vantar sem sagt eiginlega ekki neitt. Hef ekkert suður að sækja, nema auðvitað restina af fjölskyldunni, maður saknar stundum þess að geta ekki skotist heimsókn til skyldfólksins. Það verður hins vegar að hafa það, maður verður bara að gera það þegar leið liggur suður.
Hvað varðar þetta með sjálfstæði vestfjarða, þá gætu vestfirðir sjálfsagt plumað sig ágætlega, ég er hins vegar ekki viss um að restin af landinu myndi nokkuð græða á því. Ég held að restin af landinu myndi tapa. Það er nefnilega þannig að þó stundum gangi illa á vestfjörðum þá leggja þeir mikið til okkar hinna. Þetta á líka við aðra landshluta.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2008 | 13:20
Súperstar!!
Halló heimur!
Ég fór í leikhús í gær, sá rokkóperuna Jesus Christ Superstar. Ég verð að hæla hópnum sem færir rokkóperuna upp, því þetta vera tveggja klukkustunda gæsahúð. Allar leikararnir sem léku aðalhlutverkin, Jesús, Maríu Magdalenu og Júdas, voru frábærir, að öðrum ólöstuðum. Reyndar er Krummi ekki mikill leikari, en það skiptir ekki máli, hann er mikill rokkari, sama má segja um Jenna, sem fór á kostum, svo ekki sé minnst á Láru í hlutverki Maríu Magdalenu. Leikmyndin var einföld en sterk, það vantaði ekkert. Hljómsveitin var líka frábær, mætti reyndar hafa rokkað aðeins fastar, en það kom engan veginn að sök. Í það heila frábært kvöld.
Reyndar verð ég líka að minnast á veitingahúsið sem við fórum á fyrir sýningu, Nings á Suðurlandsbraut, klikkaði ekki frekar en venjulega.
Miklu meira síðar....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2008 | 10:33
Ó borg, mín borg (óttans).
Halló heimur!
Minnkaði í dekkjunum í 22 pund. Keyrði svo sem leið lá norður til Akureyrar, áfram í Skagafjörð, Húnavatnssýslur, Borgarfjörð, Hvalfjarðargöng, Kjalarnes, Mosfellsbær, Reykjavík.
Hér er meiningin að eyða næstu dögum við ýmiskonar erindisrekstur, hitta fjölskydu og fleira skemmtilegt.
Annars er það helst að þvælast fyrir mér að nú er verið að kjósa forseta í Rússlandi. Maður hefur heyrt í fréttum að búið sé að ákveða hver verði forseti og allar auglýsingar og kynningar frambjóðenda miðist við það. Einn frambjóðandi fær meiri tíma til að koma sér á framfæri en allir hinir (hmm, hverjir?) til samans. Það er náttúrulega auðvelt að halda kosningar þegar þetta er svona, ekkert svona kaos með að einhver óæskilegur komist í embættið í krafti meirihluta atkvæða. En svona er þetta og þó vesturlandabúar rífi sig eitthvað yfir þessu er nú bara blásið á það.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2008 | 21:02
Bankamannaloðnuþankar
Halló heimur!
Um daginn var kosinn nýr stjórnarformaður hjá Glitni, þekktur einstaklingur úr viðskiptalífinu, einu stærsta, ef ekki stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Hann lét það verða sitt fyrsta verk að lækka laun sín um helming, svona skiptimynt, 500þúsund krónur. Hann hefur því aðeins 500þúsund krónur fyrir starfið sem ég efast ekkert um að er þónokkuð. Ekki dettur mér í hug að lasta þennan fína mann sem síðan hefur bent á að lækka þurfi kostnað hjá fyrir tækinu, geta skal þess að aðrir stjórnarmenn Glitnis lækkuðu líka í launum á þessum sama fundi. Síðan mun forstjórinn (þessi sem fékk 300milljón krónur fyrir að byrja í vinnunni) hafa lækkað sín laun líka um helming, hann mun víst aðeins hafa rúmar tvær milljónir á mánuði eftir lækkun. Þetta hefðu nú þótt fín kjör á minu heimili, en það er önnur saga. Núna meðan þetta er slegið inn er mér bent á að stjórnarformaður og aðrir stjórnarmenn spron hafi líka lækkað laun sín.
Ég segi nú bara ekki annað en að tími hafi verið kominn til að gera eitthvað í þessum málum. Ég er mjög fylgjandi þvi að góðir menn hafi góð laun, en sko múltímillur á mánuði, það finnst mér nú kannski, allvega í sumum tilfellum, full mikið. Það hafa undanfarin ár, svona sl. þrjú allavega, heyrst launatölur og kaupréttarsamningatölur osfrv., sem hafa verið þannig að maður skammast sín eiginlega að segjast vinna fyrir íslenska ríkið á þeim launum sem maður hefur. Þau eru reyndar ekkert léleg svona borið saman við þann verkamann sem þarf að láta sér nægja strípað taxtakaupið. Það er einhvernveginn þannig að ef maður er ekki múltímilljónamaður (á mánuði) þá er maður ekkert merkilegur.
Ég er ekki að kvarta, það er fjarri mér, sérstaklega núna þegar menn virðast alltíeinu keppast við að lækka launin hjá sjálfum sér sem við (alllir skuldugir og vaxtapíndir landsmenn) sjáum þeim fyrir. Kannksi verður þetta til þess að vextirnir lækki, vaxtalækkun þýðir jú meira buddu almúgans. Svo má víst líka veiða loðnu aftur, ein 100þúsund tonn, það kemur sér vel fyrir landsbyggðina sem og alla hina.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 10:12
Balkanskagasjálfstæðisandarstandur
Halló heimur!
Í dag er dagurinn, eða á ég heldur að segja DAGURINN. Í dag er dagurinn sem íbúar Kósóvóhéraðs hafa beðið eftir. Í fréttum getur maður lesið að íbúar héraðsins hafi dansað og sungið á götum úti í nótt. Ég get alveg skilið gleði fólksins, það hlakkar til stundarinnar sem búið er að tala um síðan fyrir áramót, stundarinnar þegar lýst verður yfir sjálfstæði héraðsins. Það á semsagt að gerast í dag.
Hvað svo? Gerist þessi merkisatburðir þá fara serbar í fýlu og rússar. Skyldi Pútín nota meðul forvera sinna, sinna gömlu yfirmanna, og ráðast inn og hjálpa vinum sínum serbum að berja endanlega niður andstöðu í héraðinu? Hver veit, allavega hafa serbar lofað hátíðlega að gera ekkert nema beita efnahagsþvingunum, tilhlökkunarefni, ekki satt? Pútín virðist vera þannig maður að engin leið sé að gera sér grein fyrir hvað hann gerir næst.
Hvað svo ef engin sjálfstæðisyfirlýsing kemur? Þá er ekki ólíklegt að allt verði brjálað, fólkið sem var úti á götu í nótt með fána, skipti honum út fyrir byssu og geri uppreisn gegn þeim valdhöfum sem eru búnir að gefa þjóðinni undir fótinn með sjáfstæðisyfirlýsinguna, sem þeir þora svo ekki að standa við. Skyndilega verður brjálað að gera hjá herjum Sameinuðu þjóðanna, sem stundum kallaðir "friðargæsluliðar".
Það er sorglegt, en þó satt að þetta er svona einskissigursstaða, fólkið tapar á hvorn veginn sem er. Þó óska ég Kósóvóbúum alls hins besta í sjálfstæðismálum, megi þeir öðlast frelsi undan kúgurunum.
Miklu meira síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Guðmundur Guðmundsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar