Toppurinn að vera tölvukall...

Halló heimur!

 Sumarið virðist loksins komið hér fyrir austan.  Eins og venjulega gerist það HVELLI!  20°C dag eftir dag og ég er að grillast, mér er svo heitt að ég er í svitabaði bara við að skrifa þessar línur.  Maður er alltaf voða feginn þegar sumarið kemur, fegnari núna reyndar eftir nokkuð erfiðan vetur en eins og það er vont að vera kalt, er alveg jafnvont að vera of heitt.  Það er stundum gott að vera myrkrakomputölvukall, sérstaklega þessa dagana þegar maður hefur fullkomna afsökun fyrir að vera inni á daginn þegar mesti hitinn er.  Ég er jú tölvukall sem þarf að passa tölvurnar og hjálpa öllum sem lenda úti í móa með vördið sitt eða eitthvað.  Ef manni verður of heitt opnar maður bara gluggann og fær gust í andlitið sem þýtur í gegnum húsið og út hinumegin.

Toppurinn að vera tölvukall!

Svo í öllum sumarfínheitunum byrjar grasið í garðinum að spretta í sjötta gír og maður þarf að fara að slá einu sinni í viku.  Ekkert nema puðið þetta sumar...

 Miklu meira síðar...


Að ná nýjum hæðum...

Halló heimur!

 Fréttamenn hafa fundið nýjan frasa: "Að ná nýjum hæðum".  Olíuverð, yfirdrættir, vextir, stýrivextir osfrv.  Allt er að ná "nýjum hæðum" eða "áður óþekktum hæðum". 

Það eina sem ekki virðist "ná nýjum hæðum" er hugmyndaauðgi þeirra sem skrifa fréttir.  Þegar maður heyrir um "nýjar hæðir" liggur við að maður slökkvi á útvarpinu, sjónvarpinu og tölvunni.  Og jafnvel hendi blöðunum, þessum fáu sem maður kaupir eða man eftir grípa með sér úr búðinni.

Reynið þið nú að "ná nýjum hæðum" í hugmyndaauðgi og ritsnilli.

 Miklu meira síðar...


SundabrautargangaLónspælingar.

Halló heimur!

 Eins og þau bæði vita sem lesa þessar hugleiðingar mínar er ég áhugamaður um samgöngumál.  Hef áður skrifað eitthvað smávegis um þau.

Ég ætla nú að skrifa einn pistil til um þau mál, ekki þó aðallega um þann landsfjórðung sem ég bý í, og þó. 

Í Mogga um liðna helgi skrifaði fyrrum vinnuveitandi minn gegn sundagöngum sem þeirri leið sem Sundabraut skuli fara.  Hann talar um Vegagerðina og þær auka 9.000.000.000 (níu og níu núll=9milljarðar) krónur sem göng kosta umfram svokallaða eyjaleið.  Hann hefur margt til síns máls eins og ævinlega enda alls enginn bjáni.  Ég get í sjálfu sér verið sammála honum um að spara þessa milljarða ef ég fæ þá hingað austur í Lónsheiðargöng eigi síðar en núna strax!

Ég hef fullan skilning á mikilvægi Sundabrautar og skil eiginlega ekkert i því að ekkert skuli hafa verið gert í málinu.  Sú framkvæmd snertir alla landsmenn, Reykjavík er jú höfuðborg allra landsmanna, líka okkar sem búum ekki lengur þar.  Þetta er náttúrulega erfitt mál, það þarf að sætta mörg sjónarmið, umhverfismat, morgunmat, hádegismat, kvöldmat og hvurveitekkihvaðamat.  Einhver þarf svo á endanum að taka ákvörðun, væntanlega einhver pólitíkus sem varla þorir að taka af skarið af ótta við atkvæðatap í næstu kosningum.  Þó er ég nokkuð viss um að Kristján L. ráðherra samgöngumála fengi góðan slump atkvæða í sínu kjördæmi (NorðAusturkjördæmi) ef hann tæki nú af skarið og léti hætta við það dómadagsbull að malbika Þvottár- og Hvalsnesskriður (uþb. 150.000.000kr) og nýtti þá peninga í undirbúning Lónsheiðarganga og byrja að bora á næsta ári.

 Miklu meira síðar...


Svar við myndarukkun...

Halló heimur!

 Hún Björg (http://bjorgarna.blog.is) var eitthvað að rukka mig um myndir af skógarhögginu, óþolinmæði hennar eru engin takmörk sett, eða þannig :)

Hún ætti að vita ég er gamall maður og fótafúinn orðinn svo ekki sé minnst puttafúann, en myndirnar er að finna á sama stað og allar hinar, http://2g.is/egs, komst sko skyndilega yfir puttafúann og skutlaði þeim inn áðan.

Miklu meira síðar...


Skógarhöggsbull og fleira gott...

Halló heimur!

 Skaflinn góði hvarf loksins svo á mánudaginn var gat ég farið í langþráð skógarhögg.  Sótti keðjusögina út í skúr og framlengingarsnúrurnar, stakk í sambandi við þvottavélartengilinn og spændi niður >25 metra af limgerði og eina dauða ösp. 

Þetta var nú allt gott og blessað, ef frá er talin vinnan við að koma þessu öllu saman burt.  Nágranninn handan limgerðisins var svo ánægður með framtakið að hann kom með kerruna sína og keyrði ruslið burt.  Hann á allar þakkir og fallegar hugsanir skyldar fyrir það.  Síðan hefur ekkert gerst merkilegt, grasið grænkar hægt, hitinn aftur kominn langleiðina niður í frostmark.

Héðan af getur þetta bara lagast.....

Miklu meira síðar...


Leysingar á vori

Ég þarf að moka pallinn aftur

yfirbreiðslan á grillinu mínu er blaut,

vatnið rennur út af þakinu,

það er skýjað.


Ég er slúbbert...

Halló heimur!

Í dag er dagur verkalýðsins, 1. maí, og maður setur sig í kommúnískar stellingar og hjartað æpir hástöfum "Öreigar allra landa sameinist!".  Svo skoða ég í veskið mitt og sé þar Visakort, veltukort, orkukort og hvurveithvaðakort. 

Svo hugsa ég um það sem ég er að fara að gera á eftir, syngja með kórnum, ma. Nallann.  Ég komst nefnilega að því að þeir sem eru með mér í kórnum, af eldri kynslóð, kunnu textann og lagið afturábak og áfram og gátu gert athugasemdir við textann sem við fengum afhentan.  Ég komst um leið að öðru, nefnilega því að ég kunni hvorki textann né lagið almennilega.  Í framhaldi af því hef ég hugsað nokkuð mikið um hvað við eigum þessu fólki mikið að þakka, þessu fólki sem með blóði svita og tárum byggði upp það þjóðfélag sem nú reynir að gleyma þessu sama fólki eins hratt og hægt er, pakkar því inn á stofnanir til að þurfa ekki að hugsa um það.  Í tíð þessa sama fólks var ekki hægt að setja eldra fólkið á stofnanir, börnin þurftu að hugsa um það.  Gamla fólkið gaf unga fólkinu allt sem það hafði byggt upp.

Gamla fólkið í nútímanum gaf okkur þau lífskjör sem við búum við.  Við vælum undan vöxtum, bensinverði, matarverði osfrv.  Margt af gamla fólkinu þurfti að berjast fyrir því smálega sem við köllum sjálfsagt.  Margir höfðu ekki efni á húsnæði, bílum, mat osfrv., en með eljusemi, baráttu og útsjónarsemi tókst einhvernveginn að draga fram lífið, kannski koma upp stórum hópi barna við aðstæður sem við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund.

Þessi sama barátta er ekki til í dag.  Samtakamátturinn er ekki til í dag.  Í dag eru kortatímar, yfirdráttartímar, jeppatímar.  Samtakamátturinn er horfinn í kortahítina, neysluhítina.  Íslendingar vinna mikið, framleiða lítið, amk. mun minna en aðrar þjóðir, kaupa mikið og þykjast stoltir af ríkidæmi sínu.

Því segi ég:  Ég er slúbbert að kunna ekki Nallann almennilega.  Að geta ekki sungið baráttusöng öreiganna sem gáfu mér líf mitt og þar með sýnt þeim þá virðingu sem þeim ber á degi verkalýðsins. 

 Miklu meira síðar...

 


Skaflinn...

Halló heimur!

 Ég hef undanfarið verið að horfa á skafli í garðinum hjá mér.  Það er svosem ekki í frásögur færandi að ég horfi á skaflinn en ég hef verið að bíða burtför hans með nokkurri óþreyju vegna limgerðis sem er handan hans sem ég þarf að fella.  Skaflinn er þó nokkuð þykkur, náði mér klof þegar hann var þykkastur.  Í gær var hann búinn að hopa svo mikið að hann var orðinn að tveimur sköflum með grasrönd á milli.  Ég hugsaði limgerðinu þegjandi þörfina og hugsaði fallegar hugsanir til keðjusagarinnar.

 En viti menn!, nú er skaflinn kominn aftur....

 Miklu meira síðar...


Vörubílaslagsmál

Halló heimur!

 Í gær sáum við íslenska óeirðalögreglu fyrir alvöru í fyrsta sinn, man allavega ekki eftir að hafa séð óeirðalögreglu áður gráa fyrir járnum að berja á borgurum þessa lands.  Menn kepptust síðan við að kenna hverjir öðrum um að hafa byrjað ólætin.

Hvað sem því líður get ég ekki séð að neitt afsaki grjót- og eggjakast að lögreglu.  Heldur fólk í alvöru að það sé látið viðgangast?, ég bara spyr.  Þú kastar grjóti í lögreglu, ert tekinn fastur og æpir svo "lögregluríki, lögregluríki", ég er hneykslaður á fólki sem hagar sér svona.  Hitt er svo annað mál að það er ekki víst að alveg hárrétt hafi lögreglan haldið á málum, kannski voru einhverjir alsaklausir teknir fastir, það er vissulega miður.

Eftir því sem mér skilst komu þarna vörubílstjórar í kaffi og lokuðu í leiðinni suðurlandsveginum, að því að mér sýndist, í aðra áttina.  Það virtist hins vegar vera opin hjáleið hinumegin við bensínstöðin svo tafir hefðu ekki átt að ver svo miklar.  Þetta snerist hins vegar upp í einhverskonar óeirðir, einhverjir, að manni sýndist, krakkagemlingar komu þarna til að "snapa fæting" eins og það hét í mínu ungdæmi.  Ein stúlka sagði aðspurð um hvers vegna hún hafi hent eggjum í lögreglu: "Bara!?, til að skapa stemningu eða eitthvað...", ég spyr nú bara "eitthvað hvað?".

Síðan kemur hinn mæti maður, kallaður talsmaður vörubílstjóra, í sjónvarpið og glutraði niður tækifærinu til að fordæma vitleysuna.  Þessi ágæti maður sem mér hefur hingað til fundist nokkuð málefnalegur, sneri skyndilega við blaðinu og gerðist sérlega ómálefnalegur.  Ég bara skil ekki hvernig þetta getur verið málstaðnum til framdráttar.

Friðsamleg mótmæli einhverra hópa tel ég af hinu góða, fólk á að rísa upp og mótmæla.  Það er ekki neinum málstað til framdráttar að efna til óeirða eða slagsmála.  Það er þess vegna sem talsmenn mótmælenda, í þessu tilfelli vörubílstjóra, eiga að fordæma svona vitleysu eins og fór fram í gær.  Krakkarnir sem köstuðu grjóti og eggjum eru tæplega í röðum vörubílstjóra.

Miklu meira síðar...


Fjallaborinn

Halló heimur!

 Nú er gangaborun lokið við Kárahnjúkavirkjun, þe. þeim hluta sem er heilboraður með risabor. 

Ég var að hlusta á svæðisútvarpið á austurlandi og þar var viðtal við formann Samganga.  Samgöng er eins og allir vita verkefni sem unnið hefur verið að í nokkur ár í því augnamiði að tengja saman byggðakjarna á miðausturlandi með veggöngum.  Hann sagði meðal annars að nú væri unnið að því hörðum höndum að fá borinn keyptan svo hann færi ekki úr landi.

Enn dregur ríkið þó lappirnar í þessu máli, og hefur víst lítið eða ekkert viljað gefa út um hvort menn tækju því á jákvæðan hátt ef þetta yrði gert.

 Ég kalla eftir peningum frá atvinnufjárfestum í landinu til kaupa á bornum og viðbrögðum frá ríkinu.

 Miklu meira síðar...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur Guðmundsson

Höfundur

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2323
  • Jökla við Brú
  • Brúin við Brú
  • Sturta
  • Laugin á Laugavöllum

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband