Hver er þessi Davíð?

Halló heimur!

Hver er þessi Davíð sem allir eru að tala um?

Það er ekki um annað talað en að einhver Davíð sé ástæða þess að komin er ný ríkisstjórn, sem var víst mynduð um það eitt að reka hann úr vinnunni.

Eitt stærsta fyrirtæki Íslands var sett í greiðslustöðvun í dag.  Mér fannst það reyndar skrítið, ef marka má fréttir, hafi þetta fyrirtæki boðist til að greiða allar sínar skuldir, reyndar á lengri tíma en gert var ráð fyrir.  Hræið af Landsbankanum sagði nei, brot upp í skuldir er betra en öll skuldin á lengri tíma.  Ég er náttúrulega ekki sprenglærður peningamaður en ég vildi gjarnan að Landsbankinn gerði sig ánægðan með brot upp í mínar skuldir við hræið, en nei, ætli það.  Svo er sagt að einhver Davíð hafi sagt að fyrirtækið skyldi fara á undan sér...

Svo er alltaf verið að tala um Davíð og Seðlabankann í sömu setningunni, á þessi Davíð Seðlabankann?  Nei, það mun ekki vera svo, ég á víst Seðlabankann, að vísu í félagi við uþb. 330.000 aðra íslendinga.  Hvers vegna snýst þá allt um þennan Davíð?, er hann ekki starfsmaður í Seðlabankanum?  Ef svo er, er hann þá ekki í vinnu hjá mér og hinum 330.000 eigendum bankans? 

Miklu meira síðar...

 


Stjórnarkreppukreppa

Halló heimur!

 Jæja, þá er búið að mynda nýja ríkisstjórn og er það í sjálfu sér vel.  Þetta hefur legið í loftinu síðan nánast síðan að hrunið varð.  Þá er bara eftir að koma stjórn Seðlabankans út.  Það þarf að gera þeim sem þar sitja grein fyrir að þeir eigi að standa upp úr stólum sínum og ganga út.  Þeir eiga líka að afsala sér biðlaunum og hvað allar þessar sporslur heita sem þeir eiga að fá.  Jæja, allt í lagi, borgum þeim 3ja mánaða uppsagnarfrest gegn því að þeir standi upp ekki seinna en nú þegar.

 Mér var annars mjög skemmt um daginn þegar ljóst var að Samfylking og Vinstri grænir myndu mynda ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu Sigðurðardóttur.  Ekki vegna Jóhönnu heldur vegna þessa að Steingrímur á móti hafði gengið í gegnum umbreytingu, hann stóð að baki Jóhönnu, brosandi nokkuð, og var orðinn orð- og grandvar stjórnmálamaður sem hélt öllu opnu.  Semsagt, eygði stól og gleymdi um leið öllum stóru orðunum sem hann hafði sjálfur látið falla í sjónvarpsviðtali örskömmu áður.  Ég spyr:  Hvað hefur breyst?

Þetta er jú bara gamla sagan, stjórnmálmenn rífa sig hver upp í annan (sem er þeirra hlutverk) en hætta því snarlega þegar þeir geta komist að kjötkötlunum.  Athugið það að þessi maður er nú orðinn fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Til að sýna að þrátt fyrir allt var dagurinn í dag mjög fallegur setti ég inn mynd sem tekin var ofan af Fjarðarheiði, austanmegin í átt til Snæfells.

Miklu meira síðar... 

IMG_2323


Jólablogg.

Halló heimur!

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og friðar um hátíðarnar.

Ég vil beina orðum mínum líka til þeirra sem vart eiga málungi matar um jólin að hinn sanni jólaandi felst ekki peningum, hann felst í gæðasamverustundum fjölskyldunnar.  Það er sárt að geta ekki gefið gjafir þeim sem manni þykir vænst um en eitt faðmlag, stuðningur og samhjálp eru líka góðar gjafir sem kosta ekkert.

Við sem þjóð þurfum að ganga til þeirra verka sem vinna þarf til að komast út úr kreppunni, hlúa að þeim sem hlúa þarf að og passa að enginn líði skort.  Við þurfum að gera þetta með óbilandi bjartsýni að vopni, svartsýnin gerir allt erfiðara.

Ég ítreka að lokum óskir mínar um gleðileg jól og frið, til handa öllum heimi.

 Miklu meira síðar...


Eskifjarðarfrostrósafjöld.

Halló heimur!

 Við hjónin fórum í gærkvöldi á tónleika Frostrósa í Eskifjarðarkirkju.

Að þessu sinni voru það Margrét Eir, Hera Björk, Guðrún Árný, Edgar Smári og Jóhann Friðgeir sem fluttu dagskrána. 

Það fór ekki mikið fyrir Edgari Smára, hann gerði það vel sem hann gerði.  Mér fannst eins og Jóhann Friðgeir væri ekki vel upplagður, fannst eins og þetta væri erfitt fyrir hann.  Þetta slapp þó til, en eiginlega ekkert meira en það.  Guðrún Árný hefur mér alltaf fundist sérstök söngkona, með sinn hýpersópran dauðans, veit reyndar ekki hvað svona há og mjó sópranrödd er kölluð.  Hún komst ágætlega frá sínu.  Hera Björk klikkaði ekki frekar en venjulega, alltaf sama öryggið.  Margét Eir kom verulega á óvart, ég hef ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af henni sem söngkonu, hefur alltaf fundist eitthvað vanta uppá.  Þarna hins vegar, vantaði ekkert uppá, flutningur þeirra Heru Bjarkar á Helga nótt var hreint út sagt frábær, fór reyndar hægt af stað, en það gleymdist fljótt.

Ég verð reyndar að minnast aðeins á búninga.  Þegar þær stöllur gegnu á sviðið hélt ég að Margrét Eir vær meira en lítið veik, eignlega fárveik.  Hún er ljóshærð þess dagana og var í bleikum kjól og að því er mér fannst var greiðslan svona eins og hún væri nýstaðin upp úr rúminu.  Konan leit eiginlega út eins og liðið lík.  Um miðbik tónleikanna skiptu þær um kjóla og Margrét Eir kom fram í svörtum kjól og með betri greiðslu, allt annað sjá hana, mun lífvænlegri á svip.

Krakkarnir úr Kársneskórnum og Barnakór Egilsstaðakirkju stóðu sig vel, eins og alltaf.  Hljómsveitin stóð sig líka vel.

Þegar á heildina er litið var þetta frábært kvöld, eftir að maður jafnaði sig á sjúkleikasjokkinu í byrjun.

Miklu meira síðar...


Rúnar Júlíusson látinn.

Halló heimur!

Mikil harmafregn barst í dag, Rúnar Júlíusson lést í nótt.

Hann var einn áhrifamesti tónlistarmaður okkar á sínu sviði, poppi og rokki.  Allir áhugamenn um íslenska tónlist og auðvitað atvinnumenn í greininni munu sakna hans.

Ég óska fjölskyldu hans styrks.

Miklu meira síðar...


Við höfðum sigur!!!

Halló heimur... 

Við höfðum sigur!

Jú, útvarpsstjóri hætti við lokun svæðisstöðvanna.  Það vakti með mér ánægjuhroll þegar ég heyrði þessa frétt í gær.

Miklu meira síðar...


Spara, á kostnað landsbyggðar?!

Halló heimur!

 Það er verið að berjast við að spara, hvenær er þörf á að spara ef ekki einmitt núna?

Jú, það á að spara, spara í heilbrigðismálum, útvarpsmálum, vegamálum og hvurveitekkihvaðamálum.  Hún Jóhanna mín (Sigurðardóttir) stendur á móti sparnaði í sínum málaflokki og segir, réttilega að mínu mati, að það eigi þvert á móti að auka útgjöld.  Það á auðvitað eftir að koma í ljós hversu miklum fjölda fólks þarf að hjálpa að draga fram lífið.

Það stefnir allt í töluvert atvinnuleysi, samt er ríkið að draga úr framkvæmdum, vona þó að það sé bara tímabundið, vona innilega að settir verið á stað stórir vegavinnuflokkar, svo dæmi sé tekið, með rísandi sól.  Ríkið og sveitarfélög eiga að framkvæma eins mikið og hægt er og helst meira núna til að fólk geti fengið vinnu.  Það er skondið að þegar á að spara er skorið niður í framkvæmdum á landsbyggðinni.  Frægt er dæmið um veginn á Barðaströndinni sem bæði er skorinn niður vegna þenslu og samdráttar.  Hvaða þensla ætli hafi annars verið á Barðaströnd?

Svo tekur gersamlega steininn úr þegar spara á hjá Rúv.  Það er byrjað á að loka svæðisstöðvunum.  Þetta er kannski svona "skiptir ekki máli, það hlustar hvort eð er enginn"-hagfræði hjá útvarpinu.  Ég veit að svæðisútvarpið á austurlandi á sér tryggan hlustendahóp sem og auglýsendahóp.  Maður gat fylgst með fréttum af svæðinu, hvernig fólk hefur það í kringum mann, og verslanir og fyrirtæki augýstu töluvert.  Auglýsingar af austurlandi munu tæplega heyrast í auglýsingaflóðinu frá reykjavíkursvæðinu.  Ég er nokkuð viss um að fyrirtæki hér austanlands munu minnka auglýsingar sínar verulega og Rúv missa enn meiri tekjur fyrir vikið.  Ég er viss um að þessu sé svona farið líka annarsstaðar á landinu.  Það kostar auðvitað helling að reka svæðisútvarpið, en mætti ekki láta landsbyggðina njóta vafans einu sinni?, kannski má ekki sparka einhverjum í aðalstöðvum Rúv ef hægt er sparka einhverjum úti á landi?  Býr annars nokkur utan reykjavíkursvæðisins?

Ég skora því á menntamálaráðherra að spara annarsstaðar og leyfa okkur að hafa svæðisútvarpið.

Miklu meira síðar...

 


Að taka lán...

Halló heimur!

 Ég hef ekki um skeið haft geð í mér til að skrifa nokkuð hér til umheimsins.  Hér fer maður i vinnuna eins og venjulega með kreppufréttir í eyrum.  Fylgist reyndar með fréttum eins og fréttafíkli sæmir. 

Undanfarnar vikur hafa farið í bið eftir láninu frá AGS (AlþjóðaGjaldeyrisSjóðnum), sem ráðið er af óvinum íslensku þjóðarinnar, eins og fram hefur komið.  AGS gekk ekki í málið fyrr en íslenska ríkisstjórnin var búin að skuldbinda alla íslendinga til borga skuldir einkafyrirtækja sem fóru á hausinn.  Þessi skuldbinding er stór og sér ekki fyrir endann á henni meðan ég verð ofanmoldar.  Ekki svo að skilja að ég neitt á leiðinni undir moldu, allavega ekki viljandi, en það er jú það eina sem alveg gersamlega öruggt og skothelt er í þessu jarðlífi.  Í framhaldinu rofar kannski aðeins í hríðina, það komast kannski á einhverskonar gjaldeyrisviðskipti og við getum kannski farið að kaupa inn vörur og verslun kemst kannski á aftur milli íslendinga og annarra þjóða.  Við sem eigum ekkert nema skuldir, þykjumst eiga þak yfir höfuðið og kannski gamla bíldruslu sem er nánast einskis virði, sitjum áfram í skuldaklafanum.  Það er talað frjálslega um aðgerðir til hjálpar heimilunum, sem eru ekkert annað en lenging í hengingarólinni.  Frost=frest á lánum og þar fram eftir götunum. 

Þessi barlómur í mér er ekki vegna þess að ég standi svo illa, ég er nefnilega svo "heppinn" að hafa ekki gert allt sem mig hefur langað til síðustu ár, þe. ekki tekið lán á lán ofan til að gera við húsið mitt sem sannarlega hefði verið skemmtilegt, er þó enn þarft.  Ég tók nefnilega þá ákvörðun að vera bara með húsnæðislánið og í mesta lagi eitt lán til viðbótar í gangi í einu.  Þetta gekk þó ekki alveg svona því ég lét gamlan draum rætast og keypti mér jeppa.  Jú, jeppa, ekki þó nýjan, langt í frá, en við kaupin tók ég yfir gengistryggt lán, ég ætla ekki að fjölyrða um stöðuna á því, það geta allir gert sér í hugarlund hvernig það er, 100% hækkun á afborgun síðan í febrúar 2008.  Ég er hins vegar ekki kvarta undan því, það var alveg vitað hvað gerðist ef illa færi og mér sjálfum að kenna að ég ekki losaði mig við bílinn meðan það var einhver smáséns.  Hins vegar langar mig ekkert sérstaklega til þess þar sem ég hef full not fyrir jeppa, hér austanlands er þetta nefnilega ekki eins og í Reykjavík að her snjóruðningstækja bruni hvert um annað þvert um götur og torg fjúki fáein korn úr lofti, hér er heldur ekki rekinn strætó af sama krafti og þar, af skiljanlegum ástæðum.

Það að taka lán hefur nefnilega óhjákvæmilega það í för með sér að einhver þarf að borga, fyrr eða síðar.  Það á líka við um lánið fá AGS sem allir biðu eftir, sem og öll hin lánin sem taka á til byggja undir Seðlabankann og krónuna.  Ég er þess fullviss að það að taka lán hafi verið eina lausnin í okkar tilfelli, það verður að nota eitthvað af þessum peningum til að halda okkur gangandi.  Atvinnulífið verður að ganga, það verður að tryggja það á allan mögulegan hátt, stöðvist það er draumurinn búinn.  Samt virðist eins og stjórnarherrar þessa lands séu ekkert alltof upprifnir yfir þessu atvinnulífi.  Það er talað fjálglega um samdrátt í þjóðarframleiðslu, atvinnuleysi og fleira í þeim dúr, en ekkert virðist vera sagt um mögulegar lausnir í þeim efnum.  Það er dregið úr framkvæmdum einmitt þegar ríki og sveitarfélög eiga að framkvæma sem mest þau mega.  Ég bind vonir við að framkvæmdasamdráttur verði skammvinnur, eða þar til við fáum einhverja peninga í kerfið.

Svo þegar allt er í kalda koli vill fólk kosningar og meira að segja Steingrímur á móti, sem fetaði sig nokkuð örugglega upp metorðastigann hjá mér, hrapaði alla leið niður aftur með framlagningu vantrausts á ríkisstjórnina.  Ég skil vel fólk sem vill kosningar, ég skil vel fólk sem vill sjá breytingar en ég skil ekki fólk sem vill þingrof og kosningar í því ástandi sem nú ríkir.  Ég held að þá færum við úr öskunni í eldinn.  Kjósum eftir hálft ár, þá sjáum við kannski hvort við ráðum yfirhöfuð við verkefnið.

Margir hafa talað um ESB, einhver þingmaður (eða var það ráðherra?, hmmmm...) sagði að við kæmumst inn í ESB á nokkrum mánuðum.   Ekki veit ég hvaðan hann hefur þær upplýsingar en það var haft eftir einhverjum skriffinninum í Brussel að það tæki aldrei styttri tíma en einhver ár, svona 4 til 5.  Ég held hins vegar að við ættum að ræða málið við ESB, taka upp aðildarviðræður og sjá hvað er á borðinu.  Eitt er þó alveg deginum ljósara, það er að íslendingar mega ekki undir neinum kringumstæðum gefa eftir yfirráð yfir fiskimiðum og mögulega örðum auðlindum lands og þjóðar.  Ekki einusinni í skiptum fyrir evru.

Eitt að lokum:  Þó fjölmiðlar hafi matreitt málið þannig að lán frá AGS myndi leysa allan okkar vanda, þá vil ég benda á að svo er alls ekki.  Og það ekki einu sinni næstum því.....

Miklu meira síðar...


Ég ætla að vera bankastjóri!!

Halló heimur!

 Mikið hefur verið spugglerað í launum bankastjóra ríkisbankanna sem hafa verið stofnaðir undir heitunum "Nýi"-þetta og hitt.  Athygli mín var sannarlega vakin þegar tveimur af þremur "Nýju"-bönkunum er stýrt af konum.  Það er vissulega vel, ég ætla hins vegar ekki að lítillækka þær ágætu konum með einhverjum "hagsýnuhúsmóður"-líkingum.  Ég get hins vegar ekki annað en upplýst að ég velti því fyrir mér hver laun þessara ágætu kvenna yrðu og hvort karlkyns starfsbróðir þeirra yrði á sömu launum.  Það fréttist í dag að bankastjóri "Nýja"-Landsbankans er með 2,4milljónum LÆGRI laun en bankastjóri "Nýja"-Kaupþings.  Laun bankastjóra "Nýja"-Glitnins hafa mér vitanlega ekki verið gefin upp en sú ágæta kona sór sig í hóp fyrirrennara sinna með því að nota svarið "Ég gef það ekki upp" þegar hún var spurð hver launin væru, skammastín  bara, þú ert í vinnu hjá mér!

 Hitt er svo annað mál að "tími ofurlauna" hjá bönkunum er sannarlega ekki liðinn, eins og viðskiptaráðherra og forsætisráðherra sögðu blákalt við landslýð, kaupþingsstjóri með tuttuguogþrjármilljónirogfjögurhundruðþúsund í árslaun og landsbankastjóri með tuttuguogeinamilljón (uþb.) í árslaun.  Ég geri ráð fyrir að glitnisstjórinn sé með eitthvað svipað.  Þetta fólk er ríkisstarfsmenn, eins og ég, og ég get bara ekki séð að það séu nein rök sem hnígi að því að bankastjórar (forstjórar fyrirtækja í eigu ríkisins) séu með hærri laun en ráðamenn þjóðarinnar.  Ég vil að ráðamenn þjóðarinnar hafi það góð laun að þeir verði ekki keyptir en ég vil ekki að þeir hækki í launum þannig að þeir fái hærri laun en bankastjórarnir.  Ég vil að bankastjórarnir verði lækkaðir í launum, kannski niður í svona níuhundruðþúsund á mánuði (tíumilljónirogáttahundruðþúsund á ári), ég ímynda mér að forstöðumenn annarra ríkisfyrirtækja séu með laun eitthvað í ætt við þá tölu.

Svo þegar einhver svona vitleysa er í gangi segir enginn neitt, Sjálfstæðismenn þegja, Samfylkingin þegir, Framsóknarflokkurinn þegir, allir þegja, nema Jóhanna Sigurðardóttir, áfram Jóhanna!

Ég er allavega alveg steinhættur við að mennta mig meira, ég ætla ekki að fara í rafmangsverkfræði eins og ég hef stundum velt fyrir mér, ég ætla að verða bankastjóri.

Miklu meira síðar.


Þorskastríð, nema það hafi verið þroskastríð?

Halló heimur!

 Það vær að bera í bakkafullan lækinn að tala um banka eeeen ég ætla nú samt að gera það, kannski ekki banka heldur bankastarfsmenn eða -mann.

Í Mogganum í dag er heilmikil lesning um eitthvað sem á að hafa frést innan úr bönkunum, þessum sem hrundu, þið munið. 

Þetta er athyglisverð lesning á margan máta, margt sem kemur fram um fólkið sem missti vinnuna og hvað það hugsaði á þeim tímamótum.  Eitt stakk mig alveg sérstaklega og einhvern veginn er ég ekki hissa á að hrun hafi orðið ef marka má það sem haft var eftir einum stafsmanni.  Þó geri ég reyndar ekki ráð fyrir að þetta lýsi þeim öllum.  Það var var verið að tala um fólkið sem kom í bankann til að taka út peningana sína án þess að hafa hugmynd um hvað gera ætti við þá.  Starfsmaðurinn lýsti ástandinu eins og það væri stríð, eins og þegar bretar komu með herskipin í þorskastríðnu og ráðin voru tekin af fólkinu og sjálfstæðinu ógnað.

Ég er ekki hissa á að þessum starfsmanni hafi verið sagt upp, hann hlýtur að hafa tapað þroskastríðinu.  Gangi honum vel í atvinnuleitinni.

Miklu meira síðar...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur Guðmundsson

Höfundur

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2323
  • Jökla við Brú
  • Brúin við Brú
  • Sturta
  • Laugin á Laugavöllum

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband