21.11.2008 | 20:57
Að taka lán...
Halló heimur!
Ég hef ekki um skeið haft geð í mér til að skrifa nokkuð hér til umheimsins. Hér fer maður i vinnuna eins og venjulega með kreppufréttir í eyrum. Fylgist reyndar með fréttum eins og fréttafíkli sæmir.
Undanfarnar vikur hafa farið í bið eftir láninu frá AGS (AlþjóðaGjaldeyrisSjóðnum), sem ráðið er af óvinum íslensku þjóðarinnar, eins og fram hefur komið. AGS gekk ekki í málið fyrr en íslenska ríkisstjórnin var búin að skuldbinda alla íslendinga til borga skuldir einkafyrirtækja sem fóru á hausinn. Þessi skuldbinding er stór og sér ekki fyrir endann á henni meðan ég verð ofanmoldar. Ekki svo að skilja að ég neitt á leiðinni undir moldu, allavega ekki viljandi, en það er jú það eina sem alveg gersamlega öruggt og skothelt er í þessu jarðlífi. Í framhaldinu rofar kannski aðeins í hríðina, það komast kannski á einhverskonar gjaldeyrisviðskipti og við getum kannski farið að kaupa inn vörur og verslun kemst kannski á aftur milli íslendinga og annarra þjóða. Við sem eigum ekkert nema skuldir, þykjumst eiga þak yfir höfuðið og kannski gamla bíldruslu sem er nánast einskis virði, sitjum áfram í skuldaklafanum. Það er talað frjálslega um aðgerðir til hjálpar heimilunum, sem eru ekkert annað en lenging í hengingarólinni. Frost=frest á lánum og þar fram eftir götunum.
Þessi barlómur í mér er ekki vegna þess að ég standi svo illa, ég er nefnilega svo "heppinn" að hafa ekki gert allt sem mig hefur langað til síðustu ár, þe. ekki tekið lán á lán ofan til að gera við húsið mitt sem sannarlega hefði verið skemmtilegt, er þó enn þarft. Ég tók nefnilega þá ákvörðun að vera bara með húsnæðislánið og í mesta lagi eitt lán til viðbótar í gangi í einu. Þetta gekk þó ekki alveg svona því ég lét gamlan draum rætast og keypti mér jeppa. Jú, jeppa, ekki þó nýjan, langt í frá, en við kaupin tók ég yfir gengistryggt lán, ég ætla ekki að fjölyrða um stöðuna á því, það geta allir gert sér í hugarlund hvernig það er, 100% hækkun á afborgun síðan í febrúar 2008. Ég er hins vegar ekki kvarta undan því, það var alveg vitað hvað gerðist ef illa færi og mér sjálfum að kenna að ég ekki losaði mig við bílinn meðan það var einhver smáséns. Hins vegar langar mig ekkert sérstaklega til þess þar sem ég hef full not fyrir jeppa, hér austanlands er þetta nefnilega ekki eins og í Reykjavík að her snjóruðningstækja bruni hvert um annað þvert um götur og torg fjúki fáein korn úr lofti, hér er heldur ekki rekinn strætó af sama krafti og þar, af skiljanlegum ástæðum.
Það að taka lán hefur nefnilega óhjákvæmilega það í för með sér að einhver þarf að borga, fyrr eða síðar. Það á líka við um lánið fá AGS sem allir biðu eftir, sem og öll hin lánin sem taka á til byggja undir Seðlabankann og krónuna. Ég er þess fullviss að það að taka lán hafi verið eina lausnin í okkar tilfelli, það verður að nota eitthvað af þessum peningum til að halda okkur gangandi. Atvinnulífið verður að ganga, það verður að tryggja það á allan mögulegan hátt, stöðvist það er draumurinn búinn. Samt virðist eins og stjórnarherrar þessa lands séu ekkert alltof upprifnir yfir þessu atvinnulífi. Það er talað fjálglega um samdrátt í þjóðarframleiðslu, atvinnuleysi og fleira í þeim dúr, en ekkert virðist vera sagt um mögulegar lausnir í þeim efnum. Það er dregið úr framkvæmdum einmitt þegar ríki og sveitarfélög eiga að framkvæma sem mest þau mega. Ég bind vonir við að framkvæmdasamdráttur verði skammvinnur, eða þar til við fáum einhverja peninga í kerfið.
Svo þegar allt er í kalda koli vill fólk kosningar og meira að segja Steingrímur á móti, sem fetaði sig nokkuð örugglega upp metorðastigann hjá mér, hrapaði alla leið niður aftur með framlagningu vantrausts á ríkisstjórnina. Ég skil vel fólk sem vill kosningar, ég skil vel fólk sem vill sjá breytingar en ég skil ekki fólk sem vill þingrof og kosningar í því ástandi sem nú ríkir. Ég held að þá færum við úr öskunni í eldinn. Kjósum eftir hálft ár, þá sjáum við kannski hvort við ráðum yfirhöfuð við verkefnið.
Margir hafa talað um ESB, einhver þingmaður (eða var það ráðherra?, hmmmm...) sagði að við kæmumst inn í ESB á nokkrum mánuðum. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þær upplýsingar en það var haft eftir einhverjum skriffinninum í Brussel að það tæki aldrei styttri tíma en einhver ár, svona 4 til 5. Ég held hins vegar að við ættum að ræða málið við ESB, taka upp aðildarviðræður og sjá hvað er á borðinu. Eitt er þó alveg deginum ljósara, það er að íslendingar mega ekki undir neinum kringumstæðum gefa eftir yfirráð yfir fiskimiðum og mögulega örðum auðlindum lands og þjóðar. Ekki einusinni í skiptum fyrir evru.
Eitt að lokum: Þó fjölmiðlar hafi matreitt málið þannig að lán frá AGS myndi leysa allan okkar vanda, þá vil ég benda á að svo er alls ekki. Og það ekki einu sinni næstum því.....
Miklu meira síðar...
Um bloggið
Guðmundur Guðmundsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.