22.7.2008 | 17:30
Loksins í Lommann.
Halló heimur!
Ég, eða öllu heldur við hjónin, erum búin að vera í tvö ár á leiðinni í Loðmundarfjörð eða Lommann eins og hann er kallaður hér austanlands. Markmiðið var að fara í Loðmundarfjörð og Ódáðavötn í sumarfríinu. Einhvernvegin viðraði aldrei almennilega til ferðar, sbr. þokuferðina í Ódáðavötn. Ég er sjálfsagt einn af fáum sem hafa komið í Ódáðavötn en þó aldrei séð vötnin (eða þannig) sbr. þokuferðarbloggið.
Svo birtist alltíeinu auglýsing um messu í Klyppstaðarkirkju í Loðmundarfirði þann 20. júlí. Um leið er ákveðið að fara í Lommann þann dag hvað sem tautaði. Það er messað einu sinni á ári í Klyppstaðarkirkju og því upplagt að skella sér og taka myndir af kirkjunni og kirkjunni í Húsavík í leiðinni en þessar tvær kirkjur eru meðal þeirra fáu sem vantar af austurlandi i kirkjusafnið. Mikið var spáð í veðurspár en það leit út fyrir ágætis veður en einhvernvegin tekur maður því með fyrirvara (ehemm).
Upp rann dagurinn geysifallegur, skafheiður himinn þal. glaðasólskin og hiti. Nesti, fólki, gpsi og tölvu stappað í bílinn og lagt upp kl. 10 frá Egilsstöðum. Við ókum sem leið lá í Borgarfjörð og upp á Húsavíkurheiði, stoppuðum til að taka mynd af fjallinu Hvítserki (skyldumynd á þessari leið) og kannski fleiru.
Hvítserkur geymir "11. boðorðið" þar sem í hlíðum hans eru sérkennilegir berggangar sem mynda róversku töluna 11 (XI). Hin myndin er frá sama stað en til suðurs til Lommans sem er handan fjallsins, vegurinn hlykkjast upp vinstra megin í myndinni.
Vegurinn er brattur og hlykkjóttur og maður er voðafeginn að vera kominn niður hinumegin. Þegar þangað kom varð ég hissa á hvað Lomminn er viðlendur og grösugur. Maður getur alveg séð fyrir sér búsældarlega sveit, ef samgöngur væru skárri og ekki væri búið að stúta íslenskum landbúnaði, en það er önnur saga. Við héldum rakleiðis í Klyppstað og skoðuðum okkur um, héldum síðan áfram inneftir dalnum dálítinn spöl, fundum okkur þar þennan líka fína grasbala og borðuðum nesti.
Á Klyppstað eru rústir íbúðarhúss, en þarna var prestsetur langa hríð, kirkja frá 1895 og rústir útihúsa. Þar er líka lítil falleg á sem heitir Kirkjuá en hún getur verið víðsjárverð enda hefur hlaup úr henni eytt bænum á Klyppstað einu sinni svo vitað sé.
Áin er falleg og umhverfið allt á Klyppstað.
Töluverður fjöldi fólks var við messuna, kirkjan var full, hún tekur ca. 50 manns í sæti. Var fullsetið og ríflega það.
Þessi mynd er tekin úr fyrrnefndum grasbala inn dalinn. Hægt er að keyra áfram inneftir en þarna er bær sem varla sést á minnkaðri myndinni. Við fórum ekki lengra inneftir þar sem leið að messu, það verður bara gert næst.
Ákveðið hafði verið að fara í Húsavík í bakaleiðinni úr Lommanum. Það er stutt frá veginum þangað niðureftir og ættu allir sem þarna fara að koma við í Húsavík. Þetta er með fallegri stöðum sem ég hef heimsótt á Íslandi.
Í ferðalok heimsóttum við höfnina á Borgarfirði og skoðuðum fuglalífið í klettinum.
Komum heim í Egilsstaði um kl. 19:30, þetta hafði semsagt verið 9 1/2 tíma ferð. Við vorum þreytt en ánægð með daginn.
Miklu meira síðar...
Um bloggið
Guðmundur Guðmundsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Einhvern veginn segir mér svo hugur til að leiðin yfir í Lommann og Húsavík sé ekki sérlega útbúin fyrir lofthrædda.....
Það er greinilega gríðarfallegt þarna og eins og þú segir í pistlinum þá er að sjá á myndunum að þarna sé heilmikið undirlendi sem maður hélt að væri ekki víða á austfjörðum - allavega ekki þessum óbyggðu!
Björg Árnadóttir, 22.7.2008 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.