Herðaniðurklofningur

Halló heimur! 

 “Öxin klýfur austfirðinga í herðar niður” er fyrirsögn sem sjá má í Morgunblaðinu föstudaginn 1. febrúar anno domini 2008.

Þar er fjallað um þá fáheyrðu aðgerð að byggja einn fjallveginn enn á austurlandi í meira enn 500 metra hæð, 530 metrum reyndar. Það er alveg ótrúlegt að menn skuli í alvöru vera að spá í að henda 1.500.000.000 króna í þetta sem er 18km. vegur. Svo þegar kominn er heilsársvegur yfir þarf að halda honum opnum, bera sand og/eða salt í brekkur osfrv. Að auki á að nota fé í þetta sem til er komið vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar þorskkvóta. Það er að mínu viti svolítið hjákátlegt að tala um það þar sem þeir sem missa fyrst vinnuna vegna niðurskurðarins eru að langmestu leiti konur sem hafa jafnvel unnið alla starfsævina við færiböndin í fiskiðjuverum landsins. Ég sé það einhvernvegin ekki fyrir mér að þær fjölmenni í vegagerð. Sé þetta hinsvegar rangt hjá mér og allar konurnar fari að keyra trukka, jarðýtur og fleiri tæki og tól sem nýtast í vegagerð, þá er það vel.

Ég get að nokkru leyti skilið sjónarmið Djúpavogsbúa sem eiga langt í allar áttir, 100km suður til Hafnar, rúma 60km til Breiðdalsvíkur og álíka langt til Egilsstaða um Öxi.  Sérstaklega mtt. sameiningarhugmynda Djúpavogs og Héraðs.  Þó má segja að sniðugra gæti verið að Breiðdalur og Djúpivogur sameinist Fjarðabyggð þegar horft er til þeirra hugmynda sem settar eru fram hér á eftir.

Ég tel það lýsi mikilli skammsýni að gera Axarveg, einfaldlega vegna þess að það eru vinnubrögð fortíðarinnar.  Í greininni undir fyrirsögn þeirri sem fyrr er nefnd er vitnað í bæjarfulltrúa Fjarðabyggðar, sem virðast líka á því að þetta sé óráð. Líka er vitnað í bæjarfulltrúa Fljótsdalshéraðs sem telur þetta hið besta mál útfrá byggðasjónarmiði. Svo verður að telja jákvætt að Axarvegur myndi stytta hringveginn um 60 km. Þessi sjónarmið eiga rétt á sér, það má líka hugsa sér að þegar búið er leggja Djúpavog í eyði þá sé Axarvegur góð leið að fara með íbúana sem gætu kannski flestir hugsað sér að flytja í Hérað, án þess þó að ég ætli nokkuð að fullyrða um búsetuvilja þeirra.

Það sem þarf að gera í samgöngumálum hér austanlands er að mínu viti eftirfarandi:

Bora göng undir Hamarsfjörð.

Bora göng undir Lónsheiði, leggja þar með af veginn um Hvalsnes- og Þvottárskriður.

Bora göng undir Berufjörð utanverðan.

Bora göng milli Breiðdals og Stöðvarfjarðar.

Bora göng milli Stöðvar- og Fáskrúðsfjarðar.

Bora göng milli Reyðar- og Eskifjarðar.

Bora göng milli Eski- og Norðfjarðar (þegar á áætlun).

Bora göng milli Norð- og Mjóafjarðar.

Bora göng milli Mjóa- og Seyðisfjarðar.

Bora göng milli Mjóafjarðar og Fljótsdalshéraðs.

Bora göng milli Vopnafjarðar og Héraðs.

 

Þetta eru vissulega háleitar hugmyndir og mikil óskhyggja að þetta verði nokkurn tíma að veruleika. Þó er þetta það eina sem getur virkilega orðið þess að sameina miðausturland og firðina í eina heild, eitt atvinnusvæði. Lítum nú á hvað við myndum fá í staðinn fyrir öll þessi göng.

Hamarsfjarðargöng myndu leggja af veginn um fjörðinn sem er hæðóttur og krókóttur í vondu landslagi, þó unnið hafi verið að endurbótum á honum sl. sumar.

Lónsheiðargöng myndu, eins og fyrr er sagt, leggja af veginn um Hvalsnes- og Þvottárskriður, sem þykir dýr í viðhaldi, þar myndu því sparast peningar á móti.

Berufjarðargöng utarlega við fjörðinn myndu spara viðhald á leiðinlegum vegi um Berufjörð og stytta hringveginn um tugi kílómetra og losa okkur við Axarveg. Þar með sparast peningar á móti, nb. snjómokstur á Axarvegi sparast líka

Göng milli Breiðdals og Stöðvarfjarðar myndu leggja af veginn með ströndinni sem er leiðinlegur og undir bröttum fjallshlíðum að ekki sé minnst á veginn um Breiðdalsheiði. Mun minni þörf yrði fyrir viðhald á veginum með ströndinni, og engin þörf á að halda Breiðdalsheiði opinni á veturna sem sparar peninga á móti.

Göng milli Stöðvar- og Fáskrúðsfjarðar myndu leggja af veginn með ströndinni sem er ákaflega leiðinlegur, hæðóttur og krókóttur. Þar með þyrfti sá vegur mun minna viðhald sem sparaði aftur pening á móti.

Göng milli Reyðar- og Eskifjarðar myndu leggja af veginn um Hólmaháls. Þar reyndar í bígerð að færa veginn frá núverandi vegarstæði niður um “einn stall”, sem samt nægir ekki til að gera verulegar bætur á veginum, sem auk þess mun skerða friðlandið í Hólmanesi. Færsla vegarins í göng myndi stórauka gildi svæðisins sem útivistarsvæðis og mætti gera þar mikla túristaparadís til upplyftingar ferðaþjónustu á svæðinu.

Nýju göngin milli Eski- og Norðfjarðar þarf ekki að tíunda, þar eru allir sammála.

Göngin sem myndu tengja saman Norðfjörð, Mjóafjörð, Seyðisfjörð og Hérað væru sennilega hagkvæmust af öllum þeim kostum sem hér eru tíundaðir, nema ef vera skyldu Lónsheiðargöng. Þessi göng myndu leggja af þörfina fyrir mikið viðhald snjómokstur ofl. á Fjarðarheiði, Mjóafjarðarheiði (reyndar ekki mokuð oft á vetri) og Fagradal.

Göng milli Vopnafjarðar og Héraðs myndu trúlega ekki spara eins mikla peninga í viðhaldi annarra vega eins og önnur göng sem tíunduð eru hér að framan. Nú þegar eru uppi áform um byggingu nýs vegar frá hringveginum til Vopnafjarðar og verður þeirri framkvæmd ekki sleppt hvað sem menn gera í gangamálum, enda vegur sá sem nú er fyrir neðan allar hellur.

Maður gæti séð fyrir sér að einhver hristi höfuðið þegar minnst er á göng undir Berufjörð, þau yrðu erfið og dýr og fleira má örugglega finna þeirri hugmynd til foráttu. Ég ætla hins vegar að benda á þá staðreynd að það gerðu menn líka þegar fyrst var talað um göng undir Hvalfjörð. Einn ágætur maður sagði meira að segja að "enginn myndi far um þessi helv... göng".  Annað hefur hinsvegar komið á daginn. Nú anna Hvalfjarðargöngin ekki lengur umferðinni og farið er að tala um nauðsyn borunar annarra ganga samhliða þeim sem fyrir eru.

Tækni við gangagerð fleygir stöðugt fram, þekking manna á gangagerð hefur aukist mikið og verð lækkað. Hér í eina tíð gilti þumalputtareglan að göng kostuðu “milljón á metrann”, en það mun hafa lækkað nokkuð. Hér er vissulega um gríðarlega peninga að ræða og þeir verða ekki “týndir upp af götunni”. Einhver þessara ganga mætti fjármagna að einhverju leyti með veggjaldi td. Berufjarðargöng og Hamarsfjarðargöng, en önnur síður. Taka verður með í reikninginn þann kostnað sem sparast hjá vegfarendum við styttingu leiða, minni útblástursmengun, svo er jú dýrara að aka margar brattar heiðar í stað vega á jafnsléttu.

Menn þurfa að hætta að láta skammtímahagsmuni ráða feriðinni og setja markið hátt og sjá heildarmyndina.  Það er ljóst að forgangsraða þyrfti þessari gangagerð vandlega og menn þyrftu allir að standa þétt saman um málið.  Vissulega yrðu sumir að bíða lengur en aðrir en það er nú alltaf þannig hvort sem er að allir geta ekki fengið allt strax.

Miklu meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

11 göng..... ehhh.... ég hugsa að við tvö verðum komin undir græna torfu áður en þetta verður að veruleika!

Björg Árnadóttir, 3.2.2008 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur Guðmundsson

Höfundur

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2323
  • Jökla við Brú
  • Brúin við Brú
  • Sturta
  • Laugin á Laugavöllum

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband